Bj÷rgunartŠki

Árið 1989 fékk slökkvilið Ísafjarðar sín fyrstu glussadrifnu tæki til að bjarga fólki úr bílflökum eftir slys. Þetta var "combi" klippur/glennur frá Holmatro, auk dælu. "Combi" eru klippur og glennur í einu tæki og hefur það sína kosti upp á pláss og ekki þarf að skipta á milli tækja en ókostir eru þeir, að þó þetta séu ágætis glennur, þá eru klippurnar ekki jafn öflugar og klippur (arnarkjaftur) sem tíðkast í dag.

2003 fékk slökkvilið Ísafjarðar Holmatro klippur (arnarkjaft), gamlan úr Reykjavík, sem slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins gaf slökkviliði Ísafjarðar. Það varð strax ljóst að svona tæki hafði vantað.

2004 fékk slökkviliðið aðra gjöf frá slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins, en það voru glennur og klippur frá NIKE sem þeir vildu skipta út til að vera ekki með margar tegundir í gangi, því Reykjavík var með allt í Holmatro. Þetta eru ágætis tæki sem var töluverð bæting á tækjum hjá slökkviliði Ísafjarðar. Með þessum tækjum fengum við gamla Holmatro dælu sem var breytt til að vinna með þessum tækjum. En þetta var ekki nýtt þó þau væru lítið notuð.

Á Rauða Hananum í þýskalandi 2005 skoðaði hópurinn frá slökkviliði Ísafjarðar nýjung frá Holmatro, svokölluð Core tækni. Það datt ekki nokkrum í hug að svona tæki myndu koma með fyrstu tækjum til Ísafjarðar, en það varð raunin.

Árið 2006 fékk slökkvilið Ísafjarðar loksins ný tæki, Holmatro klippur, glennur og tjakk, tvær dælur og kubbasett. Þetta er bylting fyrir þennan tækjakost hjá slökkviliði Ísafjarðar og er slökkviliðið mikið betur búið til að takast á við það verkefni að bjarga fólki úr bílflökum í dag.