H˙sbruni. 29.02.1924. Fangah˙si­ Ý Pˇlg÷tu

Fangahúsið í Pólgötu brennur og ferst þar unglingur í bruna sem hafði verið lokaður inni. Einnig brunnu skjalasöfn bæjarfógetaembættisins og bæjarstjórnar, meðal annars tvær gerðabækur bæjarstjórnar fyrir tímabilið 1866-1905, og ennfremur gerðabók bæjarfulltrúanna 1866- ?. Norðanhríð með 14 stiga frost geisaði, er brunann bar að höndum.

Heimild Vesturland.

Föstudaginn s .l . (29.febr.) brann fanga húsið hér á Ísafirði til ösku. Einn maður var í fangahúsinu- Björn Kristjánsson unglingspiltur 16-ára og brann hann inni.

Um upptök eldsins er óvíst og verður ókunnugt. En hans varð vart eins og hér segir:

Tveir menn , Jón Jóhannsson verkstjóri og Þórarinn Helgason,, er báðir búa í húsi skammt frá fangahúsinu, voru að koma heim úr boði kl 2 ½  um nóttina. Þegar þeir komu heim undir hús sitt, þóttist Jón Jóhannsson finna sviðalykt og er þeir komu heim að húsinu , fannst honum lyktin engu ógleggri , en varð þó ekki var við reyk eða eld, hvorki í sínu eigin húsi né nágrenninu. Samt sem áður vildi hann ekki setjast að , án þess að rannsaka þetta nánar. Datt þeim félögum í hug að út hefði verið kastað sorpi og eimyrju er hætta gæti stafað af, því veður var hvasst. Ætlaði Jón að ganga norður að sjónum, því þar er slíku oft kastað. Gekk hann umhverfis næstu hús og varð einskis var, en fangahúsið datt honum síst í hug.  Vissi heldur ekki að þar væri nokkur maður.  Loks lá þó leið hans fram hjá fangahúsinu, og virtist honum þá að óeðlileg birta væri í glugga yfir forstofuhurð hússins og vakti þetta athygli hans, en enginn reykur sást. Gekk hann þá að dyrunum og lagði augað við skrárgatið og sá þá að forstofan var alelda.

Þeir félagar brugðu þá skjótt við. Hljóp annar heim til slökkviliðsstjóra en hinn tók brunalúðurinn og þeytti sem ákafast. Varð fólk heldur seint á vettvang, því hánótt var og veður hart:  norðan bylur með 14° frosti. Ekki var vaktarinn öðrum skjótari, þótt hefði mátt ætla. Og enginn leið var að komast inn í húsið, því eldurinn virtist mestur í forstofunni.

Stórlán var, að ekki brunnu fleiri hús, því þau standa þarna þétt. En svo hagar til að hús það er næst stóð norðan við, er háreyst steinhús.Var að því mikið skjól að veður náði ekki til að æsa eldinn. En annars varð náttúran að mest leyti að ráða því, hvernig eldurinn snérist.

Að sönnu eru til hér ný slökkviáhöld- mótordæla og önnur áhöld- er bærinn keypti s. l . ár fyrir ca.15 þúsund kr., en þegar til átti að taka, komst mótorinn ekki í gang, og varð dælan að engu liði.

Gömul handdæla er til, en hún fylltist af krapi og varð að litlu eða engu liði.Lá mjög nærri að steinhúsið brynni, en það eru tvö sambyggð hús: Símstöðin og hús Jóns Barðasonar,  því eldur komst í þakskeggið og logar þar um stund. Var það ráð tekið að fara upp á húsið. Var vatn borið upp í gegnum þakglugga. Gengu menn rösklega fram í þessu og varð húsinu bjargað.

Menn báru út eignir sínar í næstu húsum, og skemmdist margt en sumt glataðist, sem vonlegt var í slíku veðri.

Bruni þessi er hryllilegur fyrir þær sakir, að maður skyldi brenna þar  inni. Því vissulega er ekki hægt að hugsa sér margt er jafnast við það, að vera lokaður inni í brennandi húsi . Er slys þetta óafmáanleg skömm fyrir bæinn.

Þá er það ekki lítil hneisa fyrir bæinn, sem nýbúin er að leggja mikið fé í slökkviáhöld, að þau skuli að engu liði verða, það eina sinn, sem þeirra er þörf. Áhöld þessi eru svo góð, að í flestum eða öllum tilfellum mun mega stöðva með þeim bruna hér, ef í lagi eru. En nú hefði Tanginn fengið að sviðna því nær allur í næði, ef kviknað hefði í á öðrum stað og óheppilegri.

Ætti þetta að vera áminning til bæjarstjórnar um það, að ekki er einhlítt að gaspra, ausa út fé og bylta um. Náttúran fellur ekki í stafi fyrir flónskulátum einum.