Fellsbruninn - Mesti bruni Ý s÷gu ═safjar­ar

« 1 af 9 »

Hræðilegasti húsbruni sem orðið hefur á Ísafirði fyrr og síðar varð aðfararnótt mánudagsins 3. júní 1946.

Húsið Fell, eign Finnbjörns Finnbjörnssonar, málarameistara, brann til kaldra kola á um það bil einni klukkustund. Þá kviknaði í húsum handan Hafnarstrætis, Hafnarstræti 4, eign Þórðar Jóhannssonar, úrsmiðs og Hafnarstræti 6, eign Einars Guðmundssonar og Kristjáns Tryggvasonar, klæðskerameistara. Í þessum eldi fórust fimm manns, en öðrum íbúum hússins tókst með naumindum að bjarga sér út um glugga hússins. Þá urðu ennfremur skemmdir af eldi og vatni á húsinu Hafnarstræti 8, sem var í eigu Elíasar Kærnesteds, skósmíðameistara auk þess sem gluggar sprungu í Bókaverslun Jónasar Tómassonar. Bæjarblöðin skýrðu frá þessum atburði á forsíðu og við grípum niður í frétt Baldurs frá 8. júní 1946.

,,Aðfaranótt mánudagsins 3. júní, klukkan liðlega 5 varð þess vart, að eldur var laus í húsinu Fell, við Hafnarstræti hér í bænum. Slökkviliðið var þegar kallað á vettvang, en áður en það gat við nokkuð ráðið var Fell orðið alelda og eldurinn kominn í sambygginguna andspænis því við götuna. Brann þar allt sem brunnið gat, laust og fast, í tveimur húsum, nema eitthvað lítið af varningi og innanstokksmunum, sem tókst að ná út á síðustu stundu. Þriðja húsinu í sambyggingunni tókst með naumindum að verja og ennfremur húsi Ágústar Leóssonar og húsi Elíasar Pálssonar, sem standa að ofan- og neðan við Fell, sömu megin við götuna, en þessi hús skemmdust nokkuð af eldi og vatni. Eldurinn var svo magnaður í Felli, að talið er að húsið hafi verið orðið alelda á stundarfjórðungi og á hér um bil einni klukkustund var það brunnið til kaldra kola."

Í þessum hræðilega bruna fórust fimm manns, tíu fjölskyldur urðu heimilislausar, alls 49 manns, og auk þess átta einstaklingar.Þá segir í frétt Baldurs: ,,Auk þess brunnu þarna eftirtaldar verslanir og verkstæði: Í Felli, verslun Ágústs Leósonar, málningarverslun Finnbjörns Finnbjörnssonar og rafvirkjaverkstæði Júlíusar Helgasonar. Í Hafnarstræti 4, verslun.

Þá segir í Baldri frá 8.júní: ,, Sem dæmi þess, hve eldurinn hefur borist út um húsið á skömmum tíma má geta þess, að kl. liðlega 5 gengu þeir lögregluþjónarnir, Jón Á. Jónsson og Halldór Jónmundsson fram hjá Felli og urðu einskis varir. Fimm til sjö mínútum síðar heyrði Jón í brunalúðrunum og sá þá reykjarmökkinn gjósa út úr húsinu. Að vörmu spori var hann kominn á staðinn, en þá var eldhafið orðið svo mikið í forstofunni að útilokað var að komast inn. Tæpri klukkustundu síðar var Fell brunnið til kaldra kola. Tjón þeirra er í eldsvoðanum lentu er gífurlegt, þar sem húseignir, innanstokksmunir og varningur er þeir áttu, voru ýmist lágt vátryggð miðað við verðlag nú, og hjá sumu fólkinu alls ekki tryggð. Mun varlega er áætlað, að tjón af völdum brunans nemi 2-3 milljónum króna."

Skjótt var brugðið við af hendi bæjaryfirvalda á Ísafirði vegna brunans, ekki var rúmt um húsnæði á Ísafirði á þessum tíma, hvað þá þegar um fimmtíu manns eru á götunni að morgni. Þá misstu margir allt að því aleigu sína í brunanum. Um þetta segir Baldur: ,, Daginn sem bruninn varð, komu allir bæjarfulltrúar Ísafjarðar saman á bæjarráðsfundi og var þar samþykkt: 1. Að fólk það sem í brunanum lenti og ekki hefir húsnæði, fái húsnæði í Húsmæðraskólanum fyrst um sinn. 2. Að bæjarsjóður leggi fram 20.000.00 sem byrjunarframl. að fjársöfnun hér í bænum. Var skipuð fjársöfnunarnefnd á fundinum og eru í henni þessir menn: Séra Sigurður Kristjánsson, sóknarprestur, Sigurður Halldórsson, ritsjtóri, Kjartan Ólafsson, kaupmaður, Sigurjón Sigurbjörnsson, skrifstofustjóri og Grímur Kristgeirsson, rakari."

Það var ekki aðeins á Ísafirði sem brugðist var við, fjársöfnun var hafin í Reykjavík og ávarp birt í því tilfelli undirritað af þremur ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem þá var hin svokallaða Nýsköpunarstjórn, með þátttöku allra flokka annarra en Framsóknarflokksins og undirritaði Eysteinn Jónsson þingflokksformaður ávarpið fyrir þann flokk. Þá undirritaði biskup ávarpið svo og ritstjórar allra dagblaðanna, en blöðin tóku á móti söfnunarfé. Þá segir Baldur sem kom út 8. júní, að þá hafi þegar safnast 85 þúsund krónur á Ísafirði.

F.H.