RÝkar ßstŠ­ur til eigin eftirlits

« 1 af 2 »
Eldur veldur árlega miklu tjóni á heilsu og eignum fólks og fyrirtækja. Á undanförnum árum hefur bætt eignatjón vegna eldsvoða numið milljörðum króna. Þá er ótalinn kostnaður sem ekki fæst bættur.


Mörg dæmi eru um að fyrirtæki hafi aldrei borið sitt barr eftir eldsvoða. Ekki þarf mikinn eldsvoða til að rekstur stöðvist og reynslan sýnir að rekstrarstöðvun getur haft afdrifaríkar afleiðingar og valdið miklu meira tjóni en eldsvoðinn sem slíkur. Eða hvert leita viðskiptavinirnir þegar fyrirtækinu er lokað vegna bruna? Og hvað verður um viðskiptavildina og traustið sem kostað hefur mikla vinnu og fjármuni að afla?

Á undanförnum áratugum hafa tugir manna farist í eldsvoðum á Íslandi. Þá er ótalið andlegt og líkamlegt tjón sem fjöldi einstaklinga hefur orðið fyrir, margir til frambúðar.

Vandað eigið eftirlit stuðlar að auknum skilningi starfsfólks á mikilvægi eldvarna og getur dregið verulega úr hættu á að eldur komi upp. Fari engu að síður svo illa að eldur komi upp eru miklar líkur á að ráða megi niðurlögum hans fljótt hafi rétt verið staðið að eldvörnum og fyrstu viðbrögðum.

Eigið eldvarnaeftirlit er nauðsynleg viðbót við eldvarnaeftirlit sveitarfélaga, því ef starfsmenn fyrirtækisins hafa ekki vakandi auga með eldvörnum þá hrakar þeim milli heimsókna slökkviliðsins. Auk þess getur gott samstarf um eldvarnir leitt til enn betri árangurs en annars væri mögulegt.

Nefna má margar ríkar ástæður fyrir því að hafa öflugt eigið eftirlit með eldvörnum í fyrirtækjum og stofnunum. Ein er sú að eldvarnir draga verulega úr líkum á að eldur komi upp eða valdi miklum skaða á eigum og rekstri. Í öðru lagi getur eldur og reykur stórskaðað starfsfólk, viðskiptavini og skjólstæðinga. Hér er því mikið í húfi. Síðast en ekki síst kveða lög á um eigið eftirlit með eldvörnum.

Þær leiðbeiningar sem hér fara á eftir eru fyrst og fremst miðaðar við meðalstór fyrirtæki og stofnanir en hafa ber í huga að eðli starfseminnar hefur veruleg áhrif á það hvernig eftirlitinu er háttað, til dæmis ef verið er að fást við eldfim og/eða hættuleg efni.

Með eigin eftirliti er átt við daglegt og reglubundið eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnana á eigin vegum og fyrir eigið fé. Eigendur og forráðamenn eða starfsmenn þeirra geta ákveðið að annast eftirlitið sjálfir. Sumir kjósa að semja um það við utanaðkomandi þjónustuaðila, sem sér þá alfarið um eftirlitið eða aðstoðar við innleiðingu.

Það fer eftir stærð fyrirtækisins og starfsemi hvernig ráðlegast er að haga eldvörnum. Um er að ræða þrjár aðferðir til þess:

1. Setja sjálfur upp sitt eftirlitskerfi í samræmi við leiðbeiningar og reka það sjálfur.
2. Fá aðstoð ráðgjafa við uppsetningu eftirlitskerfisins en reka það sjálfur.
3. Fá aðstoð ráðgjafa við uppsetningu eftirlitskerfisins og rekstur þess.

Til að auðvelda þessa ákvörðun er hægt að nota meðfylgjandi flæðirit.