BÝlar rifnir Ý sundur til a­ bjarga mannslÝfum

Innlent | mbl.is | 21.2.2007 | 09:00
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu (SHS) prófaði í gær nýja aðferð sem flýtir fyrir því að ná fólki út úr bifreiðum eftir harða árekstra, en hún felst í því að toga bílana í sundur. Aðferðin er kölluð hraðbjörgun. Með henni er auðveldara fyrir slökkviliðsmenn að komast að með klippur og losa fólk undan mælaborði og stýri, sem jafnan þarf að beita tjökkum á. Þessi aðferð getur bjargað mannslífum þar sem björgunarstarf á að ganga mun hraðar fyrir sig.

Að sögn Jóhanns Viggós Jónssonar, aðstoðarvarðstjóra hjá SHS, á aðeins að taka 7-10 mínútur að ná manni úr bíl með hraðbjörgun í stað 20- 40 mínútna með klippum einum. Jóhann kynntist hraðbjörgun þegar hann starfaði hjá slökkviliðinu í Noregi og sér nú um að kynna hana fyrir íslenskum slökkviliðsmönnum. Í Noregi hafa menn verið að þróa þessa aðferð í níu ár.

Jóhann segist vita af eigin raun að hraðbjörgun hafi bjargað mannslífum, fólk komist mun fyrr á sjúkrahús en ella. Sá tími sem taki að ná fólki út úr bílum skipti sköpum ef það er alvarlega slasað. Jóhann segir ekki enn ákveðið hvort þessi aðferð verði tekin upp hér á landi, enda prófuð í fyrsta sinn í gær. Menn munu meta af frekari tilraunum hvort hraðbjörgun verði beitt.

Nokkrir bílar voru látnir falla úr mikilli hæð í gær og jafngilti fallið því að bílarnir væru á 60-90 km hraða á klst. Með því að hífa bíl upp í 24 metra hæð og láta hann falla til jarðar næst sambærilegt högg og við árekstur á 90 km hraða á klukkustund og í 20 metra hæð jafnast höggið á við árekstur á 70 km hraða.

Skrifa­u ■itt ßlit: