Vill endurnýja slökkvibíl Vesturbyggðar

bb.is | 08.09.2007 | 10:00
Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Vesturbyggðar, telur að endurnýja þurfi bifreið slökkviliðsins sem er af Bedford gerð og orðin 45 ára gömul. Á bloggsíðu slökkviliðsstjórans kemur fram að hann sé nokkuð undrandi yfir því að bifreiðin hafi komist í gegnum skoðun fyrir skemmstu. „Skoðunarmaðurinn sagði að reglur um svona gamla bíla væru ekki eins strangar og við nýja bíla en hann vildi helst ekki þurfa að skoða þennan bíl aftur.“ Þrátt fyrir að flest atriði séu í lagi er kemur að bifreiðinni segir Davíð Rúnar að miðað sé við að slökkvibílar verði ekki eldri en 30 ára og er aldur bifreiðarinnar farinn að segja til sín. „Þegar ég var á heimleið (úr bifreiðaskoðuninni. Innskot: bb.is) sá ég ferðamann á reiðhjóli bisast við að hjóla upp brekkuna, ég átti í mestu vandræðum með að ná honum en svo fór rétt áður en við komum alla leið að ég komst fram úr honum. Það tekur rétt rúmar 30 mínútur að keyra á milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar, það er eins gott að eldurinn sé ekki að flýta sér þegar við þurfum að nota bílinn“, segir Davíð.

Allflest sveitarfélög hafa notað slökkvibifreiðar af gerðinni Bedford í gegnum tíðina sem voru keyptar hingað til lands fyrir u.þ.b. þremur áratugum. „Umræddar bifreiðar hafa reynst vel hér á landi. Tími þeirra er hins vegar að renna á enda en þær þykja vera gamaldags og stirðar í notkun. Brunamálastofnun hefur reynt að sjá til þess að varahlutir væru til í landinu vegna þess að með tímanum hefur reynst æ erfiðara að útvega þá. Verða þeir Bedford-bílar sem slökkviliðin hætta að nota þá nýttir í varahluti“, segir í greinargerð frá Brunamálastofnun.

Skrifaðu þitt álit: