Elsta heimildin

Elsta heimild í fórum Slökkviliðs Ísafjarðar er skrá yfir liðið frá 1887, eða fjórum árum eftir að það er stofnað. Er líklegt að margir þeirra, sem þar er getið hafi verið í liðinu frá upphafi. Næstu tiltækar heimildir er dagbók frá 1923, þar sem gerð er grein fyrir kosningu slökkviliðsstjóra Ísafjarðarkaupstaðar þann 7. febrúar. Þá var Bergsveinn Árnason, járnsmiður, kosinn til að gegna störfum slökkviliðsstjóra og var skipaður af bæjarfógeta til að gegna stöðunni. Tók hann við embætti af Helga Ketilssyni. Bókar Bergsveinn, að fráfarandi slökkviliðsstjóri hafi daginn eftir 9. er hann var skipaður, afhent lykla að tveimur skúrum, sem í voru geymd brunaáhöld bæjarins og álítur slökkviliðsstjóri það ófullnægjandi. Slökkviliðsstjóri leggur það til, að nefndin ( brunamálanefnd ? ) skipi einn mann til upptalningar á brunaáhöldum bæjarins og bendir á bæjarfulltrúa Jón H. Sigmundsson, til þessa starfs sem vinni að málinu ásamt slökkviliðsstjóra. Síðan er gerð grein fyrir afhendingu slökkviáhalda sem fram fór 13. febrúar og er skipt í tvo flokka, annars vegar gömlu áhöldin og hins vegar nýju áhöldin. Er ástæða til að birta þessa upptalningu, sem er heimild um tækjabúnað Slökkviliðs Ísafjarðar á því herrans ári 1923 og hvað varðar "gömlu áhöldin" þá kunna að vera þar enn í notkun tæki allt frá stofnun liðsins eða skömmu eftir.


GÖMLU ÁHÖLDIN

1. 2 stigar annar 12 1/2 alin, hinn 9 alin á lengd. 2. 1 frístandandi trappa. 3. 1 sprauta með kerru og sleða. 4. 2 innanhússprautur. 5. 1 vatnskar úr striga. 6. 1 brunalúður. 7. 2 togleðursslöngur. 8. 2 strigaslöngur 9. strålerör (stútur). 10.Samsetningarstykki úr kopar. 11.Brunahakar. 12. 202 strigafötur. 13. 1 segl. 14. 1 olíubrúsi.


NÝJU ÁHÖLDIN

1. Mótordæla með skrúflyklum, smurkönnum og togl.slöngum. 2. 1 björgunarstigi með tilheyrandi áhöldum. 3. 6 slöngur á
15 m. = 90m. 4. 1 strålerör ( stútur ) með startkobling. 5. Forgrenningsstykke tilgang 2" stort afgang 2 x 2" stort. 6. 1 samlestykke afgangsslut 65 mm. Tilgang 2 x 2, alm. Brandgevind. m/kaner. 7. 2 2" Forskruninger. 8. 6 2" Startkoblinger.
Smáverkfæri sem fylgja nidhrodæluni: 5 skrúflyklar fastir, 1 skiptilykill, 1 töng, 1 kerti til vara, 1 ventill til vara, 1 trékjulla, 1 hamar.

Í lok bókunar segir: Framanskráðum munum hef ég undirritaður veitt móttöku ásamt skýrslu frá fyrrverandi brunamálastjóra.


Ísafirði 13. febrúar 1923

Þessi bókun Bergsveins Árnasonar er góð heimild um tækjakost slökkviliðs Ísafjarðar 1923 og einnig skýrskotun til þess sem hefur verið fram til þess tíma, sem eru gömlu áhöldin. Á þessum tíma virðist enn í notkun gömul handdæla og svo ný mótordæla. Bæði er notast við slöngur og eins eru fötur notaðar, svo sem upphaflega og voru það strigafötur og eru einhverjar enn til á slökkvistöðinni. Skv. skýrslu Bæjarfógeta, sem dagsett er 11. apríl 1926, virðast sömu tæki vera notuð auk þess sem segla er getið til að verja önnur hús, að því er best verður séð