Að vinna samkvæmt hugmyndafræði áhættustjórnunnar auðveldar að greina, meta og minnka eldhættur. Fyrir minni fyrirtæki með einfaldari eldhættur getur verið nóg að hafa þessa hugmyndafræði í huga í daglegri starfsemi og við reglubundið eftirlit með eldvörnum (með gátlistum), meðan stærri fyrirtæki með flóknari áhættu þurfa að gera ítarlegar áhættugreiningar og vinna með formlegum hætti að því að halda áhættu undir viðunandi mörkum.


Viðunandi er hér nokkuð afstætt hugtak því áhætta getur verið óhjákvæmilegur fylgifiskur vissrar starfsemi og getur þar með talist viðunandi. Áhætta er hins vegar aldrei viðunandi nema allar einfaldar aðgerðir til áhættuminnkunar hafi verið framkvæmdar og þeir sem taki áhættuna séu meðvitaðir um hana.

Í áhættugreiningarhlutanum er skoðað hvar og hvernig hætta er á að eldur kvikni og hverjar afleiðingarnar gætu orðið fyrir starfsemina,starfsmennina,viðskiptavinina og umhverfið.

Í áhættuviðmiðshlutanum er leitast við að svara því hvort eldvarnir séu nægilega góðar með tilliti til niðurstaðna úr greiningarvinnunni.

Í áhættuminnkun felast ákvarðanir um framkvæmd með beinum aðgerðum til að bæta eldvarnir, en líka stöðugt eftirlit með því að áhættumatið (áhættugreining og áhættuviðmið) lýsi veruleikanum hverju sinni.

Nauðsynlegt getur verið að leita til þeirra sem hönnuðu bygginguna, forvarnasviðs slökkviliðs eða viðurkenndra fagaðila. Að sjálfsögðu þarf að kynna sér bygginguna sjálfa, innihald hennar, starfsemi hennar og umhverfi.